Um NKG

Um NKG

Keppnin

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1992 og hefur verið haldin óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins, samhliða skólaárinu, þar sem nemendur fá kennslu í að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmynd til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.

Nemendur í vinnustofu NKG 2016

Barn að taka þátt í vinnustofu NKG

Framkvæmd

NKG hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem forseti Íslands afhendir stórglæsileg verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Aðstandendur NKG

Eigandi NKG er Mennta- og menningarmálaráðuneytið en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla og fleiri aðila.

Verndari Nýsköpunarkeppni grunnskólanna er forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson.

Gestir lokahófs NKG klappa fyrir krökkunum

Tilgangur og markmið NKG

  • Virkja sköpunarkraft barna í landinu
  • Gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir
  • Efla og þroska frumkvæði þátttakenda í NKG og styrkja þannig sjálfsmynd þeirra
  • Efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna í skólum og atvinnulífi

Framtíðarsýn NKG

  • Að fjölga grunnskólum sem taka þátt; allir grunnskólanemendur landsins eiga að hafa tækifæri til að senda inn hugmynd
  • Að það verði tengiliður frá hverjum grunnskóla sem sinnir móttöku gagna og kemur upplýsingum til kennara og nemenda skólanna
  • Að tryggt verði rekstrarfjármagn til framtíðar í samstarfi við ríki, stofnanir og fyrirtæki

Verndari NKG

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur samþykkt að vera verndari Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Tekur hann þar með við hlutverki fyrri forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hefur verið verndari keppninnar undanfarin ár. Þökkum við kærlega fyrir þann ómetanlega stuðning.

Forseti Íslands gegnir lykilhlutverki í verðlaunaafhendingu keppninnar ár hvert, flytur hátíðarræðu þar sem hann hvetur þátttakendur til góðra verka og veitir innblástur til nýsköpunar jafnt hjá ungum sem öldnum. Forseti Íslands undirritar og afhendir verðlaunaskjöl og verðlaun NKG ár hvert og lýkur formlegri dagskrá með opnun á sýningu þátttakenda í vinnusmiðju NKG.

Spurt og svarað

Eru takmörk fyrir því hversu margar hugmyndir hver og einn má senda inn?

Nei, senda má eins margar hugmyndir og hver og einn vill en reynslan sýnir að þeir sem senda færri en betur útfærðar umsóknir eiga meiri möguleika.

Mega tveir árgangar vinna saman?

Já, svo lengi sem það eru nemendur í 5., 6. og/eða 7. bekk.

Hvers vegna mega bara nemendur í 5., 6., og 7. bekk taka þátt?

Sem stendur geta einungis nemendur í 5. – 7. bekk tekið þátt en stefnt er að því að keppnin verði fyrir 5. – 10. bekk frá og með 2020 eða 2021.

Til hvers er horft í matsferli keppninnar?

Hlutlausir fulltrúar fara yfir hugmyndir í þremur ferlum:

  • Matsferli I: Viðmiðun er raunsæi og nýsköpun. Eru umsóknir læsilegar og skiljanlegar? Er hugmyndin nýsköpun?
  • Matsferli II: Er hugmyndin ný uppfinning, eitthvað alveg nýtt, eða er hún útlits- og formhönnun á einhverju sem þegar er til í endurbættri útgáfu?
  • Matsferli III: Er hugmyndin markaðshæf? Nýnæmi er þó ávallt haft í huga.

Er algengt að kennarar skili inn umsóknum fyrir nemendur sína?

Um það bil 98% umsókna koma frá skólum eða kennurum bekkja sem hafa innleitt Nýsköpunarmennt. Kennarar safna saman umsóknum yfir veturinn og senda inn fyrir 12. apríl ár hvert. Sendar verða ítrekanir á skrifstofur skóla um það leyti sem umsóknarfrestur rennur út til að minna á skilafrestinn.

Ef til þess kæmi að nemandi yrði valinn, er einhver ferðastyrkur?

Ferðastyrkur býðst þátttakendum af landsbyggðinni. Tilgangur hans er að koma til móts við aðgengi þátttakenda að viðburðum keppninnar sem fara fram í Reykjavík. Umsókn um ferðastyrk sendist til nkg@nkg.is, merkt NKG ferðastyrkur. Styrkurinn miðast við ákveðna vegalengd frá búsetu þátttakenda til Reykjavíkur. Ferðastyrkur NKG er í boði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Vegalengd til ReykjavíkurStyrkupphæð
100 km10.000 kr.
200 km15.000 kr.
300 km20.000 kr.
400+ km30.000 kr.

Eiga nemendur eingöngu að senda þær hugmyndir sem eru framkvæmanlegar á tíma smiðjunnar ef til þess kæmi?

Ekki er ætlast til að þátttakendur hafi þekkingu til að útfæra hugmynd sína í frumgerð. Leiðbeinendur styðja þátttakendur eins langt og mögulegt er í vel útbúinni vinnusmiðju sem leiðir þá í gegnum það ferli að færa hugmyndir í það form sem lýsir þeim best.

Hvenær rennur umsóknarfrestur keppninnar út?

Umsóknarfrestur rennur út 12. apríl ár hvert.

Hvenær fara viðburðir keppninnar fram?

Í maí á hverju ári.

Hvert á að senda skriflegar umsóknir?

Umsókn – Nýsköpunarkeppni grunnskólanna
Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Árleyni 2–8, 112 Reykjavík